miðvikudagur, apríl 27, 2005

Krimi på hospitalet.

Hún mamma er nú ekki eins og fólk er flest. Hún var að segja mér sögu frá því þegar hún var yngri og ég og pabbi bókstaflega lágum á gólfinu af hlátri. Þannig var að hún lá einu sinni á sjúkrahúsi fyrir sunnan. Hún var eitthvað í þybbnara laginu á þessum tíma og bað um að vera sett á megrunarfæði á sjúkrahúsinu. Svo var það eitt sinn að Keli bróðir hennar ætlaði að koma í heimsókn til hennar og hringdi á undan sér og spurði hana hvort hún vildi að hann færði sér eitthvað. Hún viðurkenndi nú að hana langaði alveg ógurlega í ís og hann sagði að það væri nú lítið mál að redda því. En mamma vildi nú ekki að hann sæist koma með ís til hennar. Þau plönuðu þá þetta líka rosa plott. Hún átti að fylgjast með honum þar sem hann kæmi fyrir utan sjúkrahúsið. Hann ætlaði þá að taka sér stöðu fyrir neðan gluggann hjá henni og hún ætlaði að láta síga niður til hans spotta sem hann myndi binda utan um ísinn og svo ætlaði hún að hífa hann upp um gluggann. Þetta gekk eins og í sögu nema mamma fann engan spotta. Hún brá þá á það ráð að taka bandið sem hélt sloppnum hennar saman og láta það síga niður. Og viti menn, þetta gekk eins og í sögu. Hún fékk sinn langþráða ís. "Og hvað varstu gömul" spurði ég. "Ég var tæplega fertug" svarði þá mamma. Ég grenjaði úr hlátri, hafiði heyrt annað eins. Sjáiði ekki fyrir ykkur mömmu með sloppinn lausan hangandi út í glugga að draga upp ís í sloppspottanum sínum og Kela fyrir neðan að læðupokast. Vá hvað ég myndi borga mikið fyrir að hafa fengið að sjá þessar aðfarir þeirra. Mamma sagði að Kela hefði sko ekki fundist þetta leiðinlegt, svolítið spennandi að smygla ís inn á sjúkrahús. Svo finnst fólki skrýtið að maður sé svolítið einkennilegur???

2 Comments:

At 11:12 e.h., Blogger Víkingur said...

Hehehe, amma er svo mikill prakkari! Það hefði ekki einu sinni komið mér á óvart þó að svarið hefði verið ,,tæplega sextug" ;)

 
At 12:30 f.h., Blogger Tóta Víkings said...

Nei nákvæmlega, hún gæti alveg tekið upp á svona löguðu í dag barasta ;)

 

Skrifa ummæli

<< Home